azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Thursday, January 29, 2015

Ég hef mikið að segja

Japanskar myndir eru í fókus á GöteborgFilm Festival í ár, 16 myndir telst mér og helminngur þeirrra eftir konur!


Í gær sá ég japönsku myndina Futatsume no mado eða Still the water. Kyrra vatnið. Má þýða tililinn þannig? Falleg. Ljóðræn. Um dauðann og hafið. Hafið og dauðann. Myndin hefst á druknun ... og því hvernig fólk bregst við. Slys eða ekki slys? Unga fólkið syndir, en ekki sársaukalaust. Parið, unglingarnir, synda og synda gegnum myndina og mynda límið. Gegnum að nálgast hvort annað og dauðann. Frásagnaraðferðin er kyrrlát; með lygnum nærmyndum oft orðlausum, eins og þegar aðalpersónan, unglingsstúlka horfir þögul á hvernig dýrinu blæðir út, finnur á sér hvenær sálin yfirgefur líkaman. Segir það upphátt. Og gamli maðurinn snýr baki í dýrið; segir loks eitthvað um sjóinn. Í annari senu horfir stúlkan á deyjandi móður sína, atriði sem eins og kallast á við hitt. Og fólkið syngur fyrir hina deyjandi, hennar nánustu syngja og dansa. Heimilið breytist í helgidóm. Kyrrðin/lygnan er brotin upp með ofsa hafsins og tillfinningaofsa unglingsdrengs, sem er ósáttur við líf móður sinnar og viðbrögð hennar við ást og dauða. Eitt af því sem ég féll fyrir í þessari mynd var hvernig karlmönnum er lýst sem tilfinningaverum, næmum, meðvituðum hugsunarsömum ... þannig er feðrum beggja unglinganna lýst og öll sú „karlmennska“ sem tilheyrir vestrænum bíóklisjum er víðs fjarri.


Leikstjórinn Naomi Kawase steig á svið fyrir sýningu - enda var detta hátíðleg rauðadregils sýning á Storan, með söng og kokteilboði í Kristalssalnum fyrir mynd  - hún hvatti fólk til að koma að mæta í samtal á föstudaginn, þá verður hún með masterklass, „því ég hef margt og mikið að segja“. Mér fannst hún svo skemmtileg í þessari öruggu yfirlýsingu, enda sat ég upp á svölum og sýndist þetta vera skemmtilega frjálslega klædd ung kona, svona töff og glæsileg gallabuxnastelpa hugsaði ég. Þegar ég skoða myndir og umfjöllun, sé ég hún er ekkert kornung, enda talin ein af fremstu kvikmyndagerðarmönnum japana síðastliðin 20 ár. Sem leikstýjóri, handritahöfundur og framleiðandi.
Still the water, segir hún vera sitt meistaraverk.
Naomi Kawase er fædd í Nara, Japan 1969. Tvítug lauk hún prófum við Osaka School of Photograpy og kenndi síðan fjögur ár við skólann. Gautaborgarhátíðin hefur áður sýnt mynd hennar Moe no Suzaku frá 1997.

*
Önnur japönsk mynd sem ég sá í vikunni var listaverkið: Sako nomi nite hikari kagayaku eða The Light Shines Only There, eftir Mipo O. Myndin er snilldarvel leikin, og er framlag Japans til Óskarsverðlauna.
Leikstjórinn Mipo O. Er fædd 1977, menntuð í listaháskólann Osaka og hóf ferilinn sem klippari í fimm ár fyrir Nobuhiko Obayashi. Hún hlaut Sundanceverðlaunin fyrir fyrstu leiknu mynd sína frá 2006.


The Light Shines Only There fra 2014 er myrk mynd um fólk sem býr við afar erfið lífskjör og  byggð á sögu eftir Yasushi Sato sem framdi sjálfsmorð skömmu eftir útgáfuna, bara 41 árs, þann 9 oktober 1990. Go Ayano leikur unga manninn sem hefur orðið fyrir skelfilegri reynslu við að sprengja kletta ... nú ráfar hann um í bænum, á eyjunni Hokkiado, drekkur reykir og virðist á góðri leið með að verða spilafíkill. hann kynnist náunga nýkomnum úr fangelsi og síðan systur  hans. Þau tvö eru leikin af Masaki Suda, 21 árs gömlum og systir hans er leikin af Chizuru Ikewaki (f. 1981). Öll þrjú gera vel, en hennar leikur heillaði mig sérstaklega, með afburða mögnuðum orðlausum augnablikum ekki síst í lok myndarinnar. 

Við erum lifandi - takk fyrir það

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Gautaborg hófst á föstudagskvöldið 23 janúar. Hátíð númer 38.Vígð av menningarmálaráðherra Alice Bah Kuhnke sem stóðst allar væntingar varðandi skemmtilegheit. Sagði sögur og lagði áherslu á hve mikilvægt það er að gera og sjá og ræða um kvikmyndir. 


Rauðar gular grönar og bláar regnhlífar  loftinu í menningarhöllinni Aktionsverket - Kulturarena á þriðju Löngugötu. Japanskir smárérrir og kvikmyndafólk meðfram öllum veggjum ... á miðju gólfinu er barist ... með japönskum prikum, hvítklæddir menn í einvígi ... ha dúell, er það einvígi á íslensku? Hm. Hvítklæddir menn í návígi tveir og tveir í senn hefja löng prikin á loft eftir kúnstarinnar reglum - örugglega japönskum – og láta sér lenda saman, þar til annar hvor kútveltis um á gólfinu. Á sviðinu stendur kona og baðar út öngunum ... eins og hún sé að stjórna ósýnilegri hljómsveit ... eru það bardagarnir sem hún er að stjórna? Ónei, það er tónlist, ósýnilegi kórinn er læf, stendur eins og fjarska, uppi á háum svölum og ómar þaðan um allt verkið.
Það er partý, rauðir dreglar við Derkann og Storan, fimmhundruð kvikmyndir sem á að sýna á 10 dögum. Noregur og Japan í fokus. En vígslumyndin er dönsk, ein af norrænu myndunum sem keppir um stærstu kvikmydnaverðlaun í heimi reiknað í peningum samkvæmt þeim sem kunna að reikna, hún er eftir leikstjóra sem áður hefur hlotið verðlaunin sem á alþjóðamálinu nefnist Dragon Award:Best Nordic Film.

            Amma var vön að hringja í mig á hverju kvöldi klukkan átta Svo hætti hún því. Eftir það hringi ég til hennar, sagði Michael Noer danski leikstjóri vígslumyndarinnar. Það var frumsýning á Nøgel hus spejl/Key House Mirror.  En verið ekki að spá í að þetta sé um eldra fólk; myndin fjallar um minnið en munið að þetta er ástarsaga, hún fjallar ekki um gamalt fólk eða ungt fólk, hún fjallar um ást sagði Michael áður en myndin var sýnd, með Ghita Nørby og Sven Wolter sem brilleruðu að sjálfsögðu í aðalhlutverkum, á tjaldinu og framan við það.


                    
Gita, Sven och leikstjórinn Michael Noer
  Ef þið hafið skemmt ykkur bara brotabrot á móts við það sem við höfum gert þá er er það fínt, sagði Ghita á sviðinu fyrir framan drekatjaldið og hélt áfram: Takk fyrir að koma, takk fyrir að við komum, við erum lifandi! Takk fyrir það.

Saturday, June 23, 2012

Annáll frá ársbyrjun - 2012

Eftirfarandi hvunndagsdokumentasjón er til að muna hvar ég hef verið árið 2011... gleymdi bersýnilega að leggja þetta út í veröldina á sínum tíma ... og vissi lengivel ekki hvað hafði orðið af þessari skráninu. Fann hana loks núna um Jónsmessuna!



***
Árið sem leið reyndist mér ótrúlega vel, með merkilegum ferðalögum og vinnudvölum. Og þann 27 desember fór ég til krabbameinslæknisins mín í síðasta sinn ... því hinn klassíski fimmára reynslutími - frá því að meðferð lauk - er liðinn. Skemmtileg heimsókn, næstum "vemodig med seperationsångest!" En hann doktor Nyman faðmaði mig í kveðjuskyni og að kannski sjáumst við á einhverri menningaruppákomunni ... þá var ég búin að segja honum það helsta frá árinu:

Kambódíuferð í annað sinn til að leiðbeina á vinnustofum í skapandi skrifum fyrir ungmenni í Phnom Penh, bæði nýja hópa og gamla. Draugasögur sem aðalþema í samvinnu veið yndislega Sveinbjörgu með nánast óhugnanlega góðum árangri ...  þrjár vikur samfleitt í Phnom Penh.  Náði líka að safna efni í greinar um dans í Kambódíu ... tvær hafa birst á árinu í sænska tímaritinu Danstidningen (semm lika birtu tvær greinar um dans á Íslandi eftir mig, seinast með viðtali við Láru Stefáns um Svanaþema).

Merkisatriði í mínu lífi var líka Parísardvölin allan júlí í Kjarvalsstofu við Signu; til að kanna tangóinn þar í borg. Hafði ekki heimsótt París í 30 ár og aldrei dansað þar. Flaug heim um Berlin og tók þátt í fyrstu Queertangóhátíðinni sem haldin var þar, sumsé danssögulegt atriði.

Síðan kom ágúst ... sem endaði með tangóhátíð í Reykjavík ... og ekkert handleggsbrot eða vesen í ár.
Allur september í Listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði umlukin íslensku haustlitadýrðinni og mér tókst að koma til leiðar smá atburði þar í samvinnu við gott fólk eins og Ingu Jónsdóttur safnstjóra í Listasafni Árnesinga: http://www.pressan.is/Menningarpressan/LesaMenningarfrett/almynstur-og-astridur ; þá gat ég sagt frá Parísarreynslunni í dagskrá um tangó(las úr "Dagbók frá París") og það sem meira var, það var dansað samfellt í tvo tíma í safninu síðdegis og þar með rættist draumurinn um að efna til milongu í Hveragerði. Nokkuð sem ekki hefði getað gerst nema með stuðningi og þátttöku tangófélagsins í Reykjavík, um tuttugu tangódansarar komu brunandi yfir heiðina.


Það var gaman að vera á svæðinu í september; Reykjavík, alltí einu orðin ein af  Bókmenntaborgum heimsins, sú fimmta í röðinni hjá á heiðurslista UNESCO og haldið uppá það á Bókmenntahátíðnni sem var alger veisla að vanda, með innlendum og erlendum stórskáldum og kósí mannamótum.  Og samtímis var Nútíma danshátíð í Reykjavík ... svo ekki var hægt annað en skrópa smá í Hveragerðisvistinni.

Og svo náði ég að skreppa norður, hafði ekki verið í Húnavatnssýslu síðan fyrir hrun 2008. Var nokkra daga hjá Boggu systur við sjóinn, hitti Ragnar bróðir bara á hlaupum, augnablik fyrir tilviljun þegar hann fékk sér snæðing í sjoppu á Blönduósi, með syni sínum; þeir voru á fullu í fjárfluttningum alla daga og hálfu næturnar, voru í daglegum ferðum á Vestfirði akkúrat þá dagana. Heimsótti Akureyri (dagsferð okkar systra með heimsókn til Jónu Finndísar sem aðaltakmark) sem var all breytt síðan ég kom þar seinast. Lá við að við villtumst í gamla Gilinu útaf breytingum á fjarðarbakkanum, með þessu líka myndarlega menningarhúsi, talsvert nettara en Harpan.

Í Nóvemberbyrjun beið mín næsta ævintýri: ég kom í fyrsta sinn til Bergen í Noregi og gætti þess að fljúga bara aðra leiðina (til að koma vel upplögð á tangó Marathon) og taka lest til baka. Það varð 7 tíma ægifögur fjallaferð til Osló á björtum sólskinsdegi, og áfram ca 4 tíma þaðan til Gautaborgar ... í myrkri til að jafna sig á fegurðinni.

Næsta ævintýraferð er svo áætluð í  febrúarlok, 2012; þá flýg ég til Búdapest, hef aldrei komið þangað; nota tangómarathon sem markmið ásamt efnissöfnum að vanda, hef heyrt að tangómenning Ungverja sé athyglisverð, og svo vonast ég auðvitað til að finna eitthverja af þessum frægu baðstofum í Buda eða Pest.

Gleðilegt ár!

***

p.s.
næst framundan: 10 daga kvikmyndahátíð; námskeið með skólakrökkum í skapandi skrifum; ferð til Búdapest í febrúarlok :)

Wednesday, August 25, 2010

Cirkus ICI

Í sirkustjaldinu er maður í rauðum möttli, með ógnarlanga svipu í hendi sem smellur hátt í og á támjóustu og tálengstu skóm sem ég séð og sem líka smellur hátt í.

Monday, August 23, 2010

Out of context - for Pina


Níu dansar tínast inn á sviðið og afklæðast í allri mögulegri merkingu þess orðs. Fyrst fara þeir úr öllum fötunum nema nærfötunum; með falleg bökin beint í áhorfendur, áður en þeir snúa sér að okkur sveipaðir í rauð teppi og minna augnablik á austurlenska búddatrúarmúnka. Síðan fara þeir úr venjunum hverri af annari. Og hvað með það? dansa þau þá dýr eða dansa þau manneskjur? hvernig er munurinn?
Í hljóðmyndinnni baula beljur, lengi vel, dauft, síðan hljóð úr hálsum dansaranna, kannski í leit að samhengi, kannski í von um að geta sagt eitthvað ... nálgast þann sem næstur er, þann sem veldur ótta. Hömlulausar hreyfingar hafa mótast og virka meðvitað ómeðvitaðar, allt undir öruggri stjórn og þó frumlegt.

Dansararnir á sviðinu tjá allir eitthvað sterkt og persónuleg í verkinu Out of context - for Pina eftir Alain Platel.

Mér segir svo hugur að þetta verk númer tvö með dansleikhúsflokknum Les Ballets C de la B á Dans & Leiklistarhátíð Gautaborgar komi til með að standa uppúr sem einn af hápunktunum að þessu sinni.

Ég sá sýninguna í kvöld og að henni lokinni spjall við höfund og dansara. Alain Platel er sálfræðingur að mennt og var stofnandi dansleikhúsflokksins 1984, en lítur á sig sem einn af fimm danshöfundum hópsins fremur en "the boss". Í þrjá mánuði vann hópurinn að verkinu, sem er byggt á spuna, en verkið er tileinkað þýsku sviðslistakonunni og móðir dansleikhússins Pina Bausch (1940 - 2009) sem lést 30 júní í fyrra. Það var eftir minningarathöfn í heimabæ hennar Wuppertal, sem Alain Platel fann sig knúinn til að "gefa henni eitthvað".
"Áður en ég kynntist henni, leit ég á hana sem gyðju dansleikhússins, því það var hún. Síðan kynntist ég stórkostlegri og hlýrri manneskju, sem leit ekki á dansarana fyrst og fremst sem líkama með ýmsa möguleika, heldur fremst sem sjálfstæðar persónur með eigin vilja, drauma og óskir, sem hún gat lokkað fram í samvinnunni á sviðinu."



Saturday, August 21, 2010

Dansleikhúshátíð - Í fyrsta sinn


Í fyrradag kom ég heim úr minni þriðju Berlínarheimsókn í ár, tíu daga dvöl á Stargardenstrasse, og í gærkvöldi byrjaði níunda Dans og Leiklistarhátíðin í Gautaborg - Göteborgs Dans & Teater festival - með gestasýningu frá Berlín á Óperunni. Það var argentínski danshöfundurinn Constanza Marcas og danshópurinn Dorky Park með sýninguna Hell on Earth um ungt fólk í Neukölln, þar sem lífið gengur hreint ekki vandræðalaust fyrir sig ...


Þá sýningu fékk ég ekki miða á - Lis Hellström Sveningson skrifar gagnrýni í Gautaborgarpóstinn - hinsvegar lánaðist mér að sjá belgíska flokkinn Les Ballets C de La B með Primero Erscht - um þegar allt er "Í fyrsta sinn" og aldrei sér líkt eftir það - eftir Lisi Estaras á sviðinu í Pustervik í kvöld.

Grænt grasið og klarinettuleikarinn Yon var það eina á sviðinu sem ekki færðist úr stað ... í þessari stofu minningana með tveim dansandi konum og þrem körlum; einn í laginu eins og búttað smábarn = bústnasti dansari sem ég hef séð á sviði og afburða leikari, það kom í ljós bæði í mímik og þegar replikkur komu; dramatískur trúður sem stal athyglinni mörg augnablik.

Hvað man maður. Hvernig. Hvað gerir maður. Hvað gerðum við börn. Stillir sér á grasvöllin miðjan þegar strákur skokkar í hringi og verður miðdepill. Hm. Breytir engu, best að labba út úr hringnum. Halda sér utanvið. Svo er verið að flytja, alltaf verið að flytja eitthvað. Flytja húsgögn, flytja hvert annað, flytja texta. Á föstudögum erum við góð, á föstudögum elskumst við á föstudögum æpum viðá föstudögum erum við rosalega spennt á föstudögum étum við hvort annað á föstudögum sjúgum við blóðið úr börnunum á föstudögum leikum við stikk frí ...

Það var laugardagskvöld og þetta var hugljúf sýning.

Í allt er Les Ballets C de la B með þrjú verk á á þessari hátíð; hin tvö eru Out of Context - for Pina eftir Alain Platel och nýasta verkið Gardenia eftir Alan Platel, Frank Van Laecke & Vanessa Van Durme, verk sem frumsýnt var í Belgíu 25 júni í ár.

Hátíðin hefur verið haldin annað hvert ár síðan 1994. Hún stendur yfir 20 - 28 ágúst.

Tuesday, April 20, 2010

Hve hættuleg er askan?

Móðuharðindin eru rifjuð upp ekki bara á Íslandinu, heldur var farið yfir söguna í sænskum fréttaskýringaþætti um helgina; afleiðingar goss sem kostaði um fjórðung þjóðarinnar lífið.

En hve eitruð er askan?

Því getur fólk ekki svarað, það verður bara að koma í ljós er sagt. Með tímanum.

Og nú rakst ég á þennan pistil frá 2007, um "vulkansjuka".




Thursday, April 15, 2010

Undarlegur dagur


Vigdís Finnbogadóttir er áttræð í dag. Okkar og heimsins fyrsti lýðræðislega kjörni kvenforseti verður af því tilefni ávarpaður af forsætisráðherra, háskólarektor og borgarstjóra, allt saman konur.


Eyjafjallajökull gýs eldi og ösku sem aldrei fyrr og stöðvar flug víðast hvar í Norðurevrópu.

Suðurlandið svart og grátt ... féð fær ekki að vera úti og fólk beðið að nota grímur útaf eitraðri öskunni.

Ég sæki um útgáfustyrk.

Fæ skilaboð frá norðmanni um að íslendingar hætti ekki að pína mann, fyrst fjármálin og svo askan. Einsog hann líti á náttúruhamfarir sem verandi af mannavöldum!